145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er náttúrlega alveg út í hött að ríkisstjórnin segi: Við skerum þetta niður og þið skáruð meira niður. Það er ekkert hægt að bera saman ríkisfjármálin þá og nú. Nú erum við í uppsveiflu. Ég hefði viljað nota hana til að bæta við það sem við þurftum að skera niður. Það er nákvæmlega það sem ríkisfjármálaáætlunin sagði okkur í vor. Hún sagði: Þetta er stjórnarstefnan. Það er stjórnarstefnan að lækka skatta á þá sem best hafa það og minnka framlög til samneyslunnar. Þetta er bara stjórnarstefnan. Við eigum ekkert að láta það koma okkur á óvart. Við eigum kannski að láta það koma okkur á óvart að fólk hafi kosið þetta yfir sig. Það kemur mér svolítið á óvart. En stefna stjórnarflokkanna er að skera niður í velferðarmálunum, lækka skatta á útgerðina, taka af auðlegðarskattinn, lækka mest álögur á þá sem skást hafa það þó, ekkert á hina og ekkert til aldraðra og öryrkja.