145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér fannst hv. þingmaður komast ágætlega að orði þegar hún talaði um ríkisstjórn unga fólksins sem hefði ekki neinn skilning á málefnum eins og eldri borgara og öryrkja og svo mörgu öðru og færi ekki vel með vald sitt. Það hefur að mínu mati lýst sér í orðum hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talaði á þá lund að öryrkjum fjölgaði allt of mikið, eins og það væri bara sjálfkrafa maskína og allt stefndi í óefni, og það að hingað til hefðu þessir hópar getað lifað af því sem í boði væri. Þetta er það sem ég hef tekið eftir í málflutningi þeirra. Hæstv. forsætisráðherra lýsir því yfir að það sé ekki um neitt að semja og lætur eins og þetta sé eitthvað sérstaklega fyrir okkur í minni hlutanum en ekki þá hópa sem þarna eru á bak við og þurfa svo virkilega á kjarabótum að halda vegna þess að þeir hafa dregist aftur úr og njóta ekki sömu kjara með bættum efnahag og aðrir þjóðfélagshópar.

Mig langar að fara aðeins áfram í þetta mál. Þetta er eitt af því sem við í stjórnarandstöðunni munum berjast fyrir, að bæta kjör eldri borgara og öryrkja, fram á síðustu stundu. Það er okkar hlutverk að standa vörð um kjör þessa fólks þar sem skilningur ríkir ekki hjá núverandi valdhöfum á þessum málaflokkum. Þeir eru einhvern veginn svo veruleikafirrtir (Forseti hringir.) gagnvart því fólki sem þarf að lifa á þessum lágu launum.