145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan hér í morgun og að einhverju leyti líka í einhverjum útvarpsþætti í gær um öryrkja — ég held að það hafi verið orðað þannig að vinnandi fólk hefði ekki úr meiru að spila en öryrkjar og þetta væri náttúrlega alveg gasalegt. Öryrki þarf það sama til að lifa af og vinnandi fólk. Það er svoleiðis. Í framhaldinu af þessu spannst umræðan þannig áfram að það væri á allra vörum og alkunna að ungir menn færu ekki að vinna, festust heima, ég veit ekki hvort það var sagt að þeir væru alltaf í tölvuleikjum eða hvað það var, og breyttust í öryrkja. Ég held að það hafi verið röksemdafærslan.

Virðulegi forseti. Ef þetta væri nú rétt og ef það væri svo þá skulum við ráðast að þeirri meinsemd og finna út hvað við getum gert fyrir þessa ungu menn og ungu drengi sem festast heima. Við reyndum það. Það var reynt á síðasta kjörtímabili með alls konar verkefnum, virkni á því sviði og þau hétu ýmsum nöfnum. Við skulum þá ráðast að rótum þess vanda sem er mjög alvarlegur ef rétt er. En almáttugur minn, að fara að láta að því liggja að menn gerist öryrkjar (Forseti hringir.) bara af því að þeir nenni ekki að vinna. Það er náttúrulega svo (Forseti hringir.) dónalegt að ég ætla ekkert að segja neitt meira um það.