145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú verð ég að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega hver heildarupphæðin var hjá okkur í minni hlutanum, en hún hljóp ekki langt frá þessari tölu, a.m.k. rúmir 2 milljarðar, gott ef hún slagaði ekki upp í 3 milljarða. Ég velti því fyrir mér vegna þess að í tillögu minni hlutans eru einnig tekjuöflunarleiðir til að koma til móts við þau auknu útgjöld sem lögð eru til, en einstaka þingmaður hefur tjáð efasemdir um að þær tekjuöflunarleiðir mundu ganga upp, sér í lagi sú leið að innheimta meiri skatt með því að uppræta skattsvik. Þá velti ég fyrir mér, þar sem 3 milljarðar eru að mínu mati ekki mjög há tala í fjárlögum og í samhengi við mikilvægi málaflokksins sérstaklega og þeirrar forgangsröðunar sem þjóðin ætlast til, að ef tekjuöflunarleiðir minni hlutans mundu ekki ganga eftir að fullu hvort hv. þingmaður telji að við gætum þrátt fyrir það staðið að þessari 3 milljarða kr. aukningu.