145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, alveg tvímælalaust. Ég sagði hér áðan í lok ræðu minnar undir miklum bjölluhljóm að í fjárlagafrumvarpi næsta árs hefði meiri hlutinn sagt beint frá væntanlegum arði frá bankastofnunum og þá sérstaklega Landsbankanum því að hann er vantalinn um nokkra milljarða, jafnvel 10–12 milljarða. Það er ekkert nýtt. Stjórnendur Landsbankans hafa í raun kallað eftir því að fá að greiða meiri arð út vegna þess að Landsbankinn er í vandræðum með að ávaxta eigið fé og sýna almennilega ávöxtun á því. Þess vegna er það enda segir meiri hlutinn það. Á þessu ári, ef við tökum það líka af því að deilurnar snúast líka um þetta ár og fjáraukalögin, eru 22 milljarðar áætlaðir í afgang samkvæmt fjáraukalögum. Ég spái því, virðulegi forseti, og það verður gaman að ræða það þegar ríkisreikningur kemur fram, að 32–35 milljarðar verði eftir á þessu ári. Það er (Forseti hringir.) því borð fyrir báru að setja meira inn í heilbrigðiskerfið.