145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann tók fyrir tvo málaflokka sem brenna á mönnum í umræðunni og gerði það vel, bæði kjör aldraðra og öryrkja og stöðu Landspítalans. Það hefur komið fram í máli æðstu stjórnenda ríkisins, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, að það eigi ekki að gera neitt varðandi þær kröfur að aldraðir og öryrkjar fái kjör sín bætt eins og aðrir þjóðfélagshópar aftur til 1. maí á þessu ári. Við tókumst á um það í fjáraukanum og tillaga þess efnis var felld.

Það er talað eins og þessir hópar geti vel sætt sig við kjör sín vegna þess að það séu líka þjóðfélagshópar á kjarasamningum þar sem launin eru lág. Við vitum það. Það er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Vonandi tekst verkalýðshreyfingunni áfram að berjast fyrir bættum kjörum. Hún náði ákveðnum áfanga í síðustu kjarasamningum fyrir þá lægst launuðu. Þessir hópar, aldraðir og öryrkjar, hafa ekki möguleika á að fara í verkfall til að bæta kjör sín og ekki velja þeir sér það að vera öryrkjar. Það er lítið val að verða aldraður, maður verður það ef maður heldur góðri heilsu. Flestir verða aldraðir og svo endar það einhvern veginn.

Mér fannst mjög áhugavert þegar hv. þingmaður dró fram hvaða hækkanir hefðu verið á kjörum þessa fólks því að þær eru sáralitlar eftir skatta, (Forseti hringir.) frá því í maí 2013 einungis 10 þús. kr. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að það sé einhver möguleiki að ná eyrum ráðherra í hæstv. ríkisstjórn?