145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt já við því hvað varðar að ná eyrum stjórnarþingmanna og ráðherranna, en ég óttast að það sé ekki hægt, allra síst eftir daginn í dag þar sem hæstv. forsætisráðherra fór geyst í þessum ræðustól og hótaði okkur eiginlega fyrir að ræða þetta mál.

Hv. þingmaður gerir aldraða og öryrkja að umtalsefni. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, vegna þess að mér finnst betra að ræða um krónutölu í þessu sambandi en prósentur, þá var hækkunin í upphafi þessa árs, sem ríkisstjórnarflokkarnir hæla sér af, 4 þús. kr. eftir skatt. Hækkanirnar í tíð núverandi ríkisstjórnar frá sumri 2013 til dagsins í dag eru 10 þús. kr. eftir skatt. Það er allt og sumt. Örorkulífeyririnn hefur hækkað úr 162 þúsund í 172 þúsund í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. um 10 þús. kr. Eins og ég sagði skulum við hlusta á það ef það kemur fram hér á eftir hverjar prósentutölurnar voru í umburðarbréfi félagsmálaráðherra til stjórnarþingmanna á sínum tíma. Ég vil tala um krónur.

Hér hef ég töflu frá liðnu sumri þegar var verið að semja um kaup og kjör. Þar er tafla um að laun hjá VR hækka strax árið 2015. Þeir sem voru með 230 þúsund hækka í 255 þúsund, eða um 25 þús. kr. Það er hækkunin sem þar kemur fram. Síðan getum við skoðað 750 þús. kr. launamanninn sem hækkar um 24 þúsund. Hann hækkar um 107 þúsund á tímabilinu á meðan 230 þús. kr. launamaðurinn hækkar um 70 þúsund. Það eru þessi viðmið sem við verðum að hafa í huga þegar við tölum um kjör aldraðra og öryrkja og þá sanngirniskröfu (Forseti hringir.) að þeir fái sína hækkun afturvirkt á (Forseti hringir.) þessu ári eins og aðrir í þjóðfélaginu.