145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka vaxtabætur og barnabætur til umræðu. Ég held að þeir sem leggja til þessa lækkun á þeim sjái ekki fyrir endann á því hvaða þýðingu það hefur og inn á hvaða braut við erum komin. Um leið og menn fara að ákveða að hækka ekki viðmiðin þá fjara þessar barnabætur og vaxtabætur hægt og rólega út sem stuðningur við barnafólk.

Á sama tíma eru menn að benda á að þeir hafi komið inn með skuldaleiðréttingar en þá er vert að benda á að þeir sem fengu skuldaleiðréttingar í þessari seinni umferð — fyrri umferðin fór fram á síðasta kjörtímabili — voru ekki endilega með mestu skuldirnar. Það unga fólk hafði fengið það miklar leiðréttingar á síðasta kjörtímabili að það var allt dregið frá núna, sá hópur sat eftir í seinni umferðinni, unga fólkið með mestu skuldirnar. Það er það fólk sem við höfum ákveðið að skuli fá stuðning í gegnum vaxtabóta- og barnabótakerfið og það er ekki úr lausu lofti gripið heldur vegna þess að við vitum að þetta er sá hópur sem ber þyngstu greiðslubyrði af lánum sínum á sama tíma og það er með börn sem kostar að hafa í leikskóla. Ég hef tekið sem dæmi að það kostar 60 þús. kr. á mánuði að vera með tvíbura á leikskóla í Kópavogi. Ofan á það kemur ýmis kostnaður, eins og við þekkjum, af því að reka stórt heimili fyrir unga fjölskyldu. Þó að tekjurnar séu kannski sæmilega háar á skattframtalinu fá býsna margir sinn skerf af því áður en fjölskyldan getur farið að kaupa það sem þarf til að hafa í sig og á.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég held að menn átti sig ekki (Forseti hringir.) á því að með því að taka þá ákvörðun að láta viðmið ekki fylgja þá eru menn að draga (Forseti hringir.) allan mátt úr þessum mikilvæga stuðningi við þennan þjóðfélagshóp.