145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega málið, það hefur í raun ekkert breyst annað en það að hér hefur orðið gríðarleg hækkun á fasteignamati sem þýðir að þetta sama fólk er orðið í töluvert betri stöðu á pappírunum, en það hefur ekkert breyst hjá því. Reksturinn á þungu barnaheimili er alltaf jafn hár og kostnaðurinn við að versla inn fyrir slíka fjölskyldu hækkar alltaf. Ég ætla sérstaklega að biðla til framsóknarmanna í þessu stjórnarsamstarfi að skoða það í alvöru hvaða áhrif það getur haft að veikja vaxtabótakerfið með því að láta viðmiðin ekki fylgja þeim breytingum sem eiga sér stað á fasteignamati og öðru. Þetta mun hitta stóran hóp mjög illa fyrir og það strax á næstu árum. Þetta hefur lengi verið draumur sjálfstæðismanna. Þeir hafa aldrei þolað vaxtabótakerfið. En við höfum þó getað stólað á framsóknarmennina (Forseti hringir.) í því að standa um það vörð. Ég vona að þeir standi í lappirnar núna og láti ekki teyma sig inn á þá braut að veikja það þannig að það veiti ekki þann stuðning sem það á að gera.