145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það. Það er akkúrat það að þetta unga fólk er í raun að greiða hærra hlutfall af laununum sínum í sinn rekstur, hvort sem það er húsnæðiskostnaður eða í formi hærri matarskatts, við skulum ekki gleyma því. Sykurskatturinn var afnuminn og matarskatturinn var hækkaður. Ég spyr mig stundum að því, þegar maður horfir yfir þetta svið, sérstaklega gagnvart framsóknarmönnum sem, gleymum því ekki, slógu varnagla við fjárlagafrumvarpið (Gripið fram í.) og sögðu að tilteknar mótvægisaðgerðir þyrfti.

Ég spyr mig: Eru framsóknarmenn sannfærðir um að mótvægisaðgerðirnar hafi skilað sér? Ég er ekki sannfærð um að þær hafi skilað sér að öllu leyti. Ég held að þær tillögur sem við höfum hér borið fram um barnafjölskyldur, bæði að þessu leyti og eins það með að hækka fæðingarorlofið upp í 500 þús. kr., komi til móts við það líka að ungir karlmenn (Forseti hringir.) verða heima og taka fæðingarorlof, það er líka til að styrkja ungar barnafjölskyldur.