145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og við höfum báðar nefnt eru þetta ólíkir hópar, þ.e. þeir sem eru með langvinn vandamál og engir hvatar gera neitt fyrir þá. Hins vegar eru þeir sem eiga við tímabundinn vanda að etja og þurfa stuðning fyrst og fremst. Þar vorum við á síðasta kjörtímabili með fjölmörg úrræði tengd menntakerfinu, sem hv. þingmaður kom inn á, og voru beinlínis ætluð sem stuðningur við þá sem duttu út af sporinu tímabundið eða lentu í tímabundnum veikindum.

Við þeim prógrömmum hefur núverandi ríkisstjórn fúlsað, þ.e. líklega vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn setti þau á laggirnar, þá eru þau ómöguleg. Það er því svolítið sérkennilegt að heyra menn tala um hvata öðrum megin en vera síðan að slá út af borðinu verkfærin til að styðja við fólk með hinni hendinni. Það sem ég heyri hins vegar fjármálaráðherrann segja er; hvatinn sem hann sér fyrir sér er að svelta menn og fólk út úr kerfinu, þ.e. að hafa laun þessara hópa nógu lág, menn reyni einhvern veginn að svelta fólk út. Það finnst mér frekar óhugguleg stefna ef ég á að segja alveg eins og er. Eins og ég sagði og hv. þingmaður nefndi er þetta ekki fólk sem velur sér sitt hlutskipti. Öll verðum við einhvern tímann gömul og ég ætla rétt að vona að við sem flest verðum það, og þetta er hópur sem við verðum að styðja vel við. Sama á við um þá sem búa við langvinna sjúkdóma og örorku, það er enginn hvati fyrir langveikan einstakling að vera sveltur út úr kerfi. Það kemur honum bara illa. Ég held að þetta viti allir og ég vona að menn sjái aðeins að sér í þessu og villu síns vegar.