145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að segja að forseta er vorkunn. Hvað á hæstv. forseti að gera þegar þingmenn fara langt fram yfir? Ég hef áður bent á það í umræðum um fundarstjórn forseta að ég tel að forseti þurfi eitt vopn í sínar hendur sem er alsiða að beitt sé í erlendum þingum, það að vísa mönnum úr þingsalnum. Ég er síst að leggja til að minni ágætu stallsystur hefði átt að vísa úr þingsal en ég vil nota þetta tækifæri til að koma þessu sjónarmiði á framfæri. Þetta á að vera eitt af því sem forseti hefur í sínum höndum.

Svo get ég ekki látið hjá líða að minnast einhvers glæsilegasta ræðumanns sem hér hefur talað á minni tíð, þingmanns Framsóknarflokksins af Vestfjörðum, Ólafs Þ. Þórðarsonar sem sagði að eftir hartnær tveggja áratuga þingsetu væri hann næstum því orðinn heyrnarlaus af þessu bjölluglamri svo ég hef fulla samúð líka með þeim sem sitja við skjáinn heima og fá allt í einu þetta glamm inn til sín. (Forseti hringir.) Eins og jafnan er ég uppbyggilegur og ég er sem sagt með tillögu til lausnar.