145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að stjórnendur stofnunarinnar hefðu dregið saman og skorið niður í rekstri um 5%. Hæstv. ráðherra talaði hér í þarsíðustu viku um þau málefni. Það hefur komið fram líka að gripið hefur verið til ýmissa aðgerða eins og að ganga frá lóðasölu í kringum Ríkisútvarpið til þess að bæta skuldastöðu. Ég get ekki fallist á að ekkert hafi verið gert til að mæta þessari stöðu. Ég ætla líka að leyfa mér að segja að ég tel að þær áherslur sem við höfum séð hjá Ríkisútvarpinu séu mjög í takt við þær línur sem voru lagðar í lög um Ríkisútvarpið og verða væntanlega lagðar í þjónustusamninginn sem snýst meðal annars um hinar dreifðu byggðir og um aukið efni fyrir börn. Ég tel að áherslurnar í því sem Ríkisútvarpið hefur verið að gera séu í takt við það sem hefur verið til umræðu á Alþingi.

Mér finnst eðlilegt að stjórnendur komi til móts við ríkisvaldið. Þeir hafa gert það samkvæmt hæstv. ráðherra. En ég styð líka hæstv. ráðherra í því að ekki verði haldið áfram með lækkun gjaldsins til þess að unnt sé að tryggja hér áfram öflugt (Forseti hringir.) ríkisútvarp. Hæstv. ráðherra hefur boðað það að verði þetta gjald lækkað (Forseti hringir.) muni það hafa veruleg áhrif á inntak Ríkisútvarpsins.