145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir heyrði vel í fyrra andsvari mínu þá hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að stjórnendur stofnunarinnar (Gripið fram í.) hafi skorið niður. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt eins og hjá öðrum opinberum stofnunum að það sé samvinnuverkefni stjórnenda og stjórnvalda að leysa úr því að minnka hallann. Við þekkjum mörg slík dæmi frá opinberum stofnunum þar sem stjórnendur hafa skorið niður í rekstri og ríkissjóður hefur komið til móts við þær. Hæstv. fjármálaráðherra talaði líka fyrir slíkum lausnum í þarsíðustu viku þegar við vorum að ræða hvernig ætti að meðhöndla halla á stofnunum. Þar tel ég að samspil sé eðlilegt. Mér finnst mikilvægt það sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að þegar hefði verið gripið til ýmissa ráðstafana. Mér finnst að til þess eigi að horfa af Alþingi þegar við erum að ræða lækkun útvarpsgjaldsins að það hafi þegar verið gert. Undir það tek ég með hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra.