145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hefur vakið athygli mína við þessa umræðu, einkum og sér í lagi í dag, er að forustumenn stjórnarliðsins hafa bæði í sölum Alþingis og ekki síður í fjölmiðlum verið að kvarta og kveina undan því að stjórnarandstaðan ræði við þá málefnalega. (Gripið fram í: Gríðarlega málefnalega.)

Frú forseti. Hvenær hefur verið þörf á því að taka djúpa umræðu um fjárlög ef ekki núna? Núna búum við við það sem bankastjóri Landsbankans hefur kallað blússandi góðæri. Á sama tíma er ljóst að það vantar að minnsta kosti 2,9 milljarða til þess að halda í horfinu með Landspítalann frá síðasta ári. Sömuleiðis liggur fyrir að stjórnarliðið virðist ætla að standa upp frá þingstörfum fyrir jól án þess að hafa bætt öldruðum og öryrkjum það sem þeim ber. Þeir eru eini hópurinn sem ekki fær afturvirka hækkun bóta eins og allir aðrir. (Gripið fram í.)

Ég spyr hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur: Getur hún hugsað sér að halda (Forseti hringir.) héðan til jólagleði og ljúka störfum án þess að ríkisstjórnin komi með einhverjum hætti til móts við (Forseti hringir.) sanngjarnar kröfur stjórnarandstöðunnar um aukið fjármagn til Landspítalans og um aukið fjármagn til aldraðra og öryrkja?