145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég sagði í ræðu minni að mér væri ljóst að þær tillögur sem stjórnarandstaðan hefði lagt fram kostuðu peninga. Þær gera það en þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í, t.d. í skattalækkunum og gjaldalækkunum, hafa líka kostað peninga. Við ættum kannski að ræða þá hlið málsins þegar forsvarsmenn stjórnarflokkanna koma og segja: Þetta er of stórt til að hægt sé að gera neitt í því. Þá ættum við að skoða þær tekjur sem runnu til dæmis út með auðlegðarskattinum eða fóru burt með lækkun veiðigjalda. Það voru stórar tölur líka. Þær fjárhæðir nýtum við ekki núna til þess að bæta stöðuna á Landspítalanum og við nýtum þær ekki til að bæta stöðu öryrkja og aldraðra. Þess vegna hef ég sagt og ítrekað í ræðu minni að það sé fullkomlega eðlilegt að við ræðum þessi mál, en niðurstaða þessarar fjárlagaumræðu hlýtur hins vegar ávallt að verða á ábyrgð stjórnarmeirihlutans í þinginu.