145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór ekki á milli mála að stjórnin var þar í meiri hluta hjá síðustu ríkisstjórn. Það væri ágætt að menn útskýrðu forsendurnar fyrir því. Þetta var fjárfesting af þeirri stærðargráðu að það gat ekki verið neitt smámál.

Ég endurtek, mér finnst það ekki sannfærandi — eitt er það, ég skil alveg að það hafi þurft að spara á síðasta kjörtímabili, skil það mætavel, en það er ekki hægt að halda því fram að menn hafi forgangsraðað í þágu heilbrigðismála á síðasta kjörtímabili, alveg sama hvernig menn líta til þess. Mér finnst stóryrðin vera helst til mikil hjá þeim sem voru í síðustu ríkisstjórn. Ég er með allar þær tölur og get alveg farið yfir það í smáatriðum og mun gera það.

Annað sem er, virðulegi forseti, bætt skatteftirlit, þetta er út í loftið og það vita allir. Það er ekkert fast í hendi, 4 milljarðar. Því síður sérstakur skattur á seldri raforku. Til er undirskrifað bréf frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann staðfestir að ekki verði slíkur skattur settur á.

Arðgreiðslur frá fjármálastofnunum. (Forseti hringir.) Það er farið eftir Bankasýslunni og það er nú ekki lítið sem hv. stjórnarandstæðingar hafa lagt upp með það að þessi fagstofnun eigi að stýra í þeim efnum. Það verða ekkert meiri peningar til þótt menn setji einhverja svona tölu niður.