145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að fara yfir tölurnar. Við getum bara gert það í rólegheitum. Það er þvílíkt verið að auka í heilbrigðismálin eftir mikinn niðurskurðartíma. Ef menn trúa því að það þurfi að fara að vísa fólki frá þá stenst það ekki nokkra einustu skoðun. Mér finnst ábyrgðarleysi að tala með þeim hætti.

Hins vegar finnst mér líka, og ég hefði viljað skiptast betur á skoðunum við hv. þingmann, eins og hún ræddi mikið um safnliðina en líka um galla safnliðanna og hvernig fyrirkomulagið er núna. Það er algerlega handónýtt. Það er ekki gagnsætt, það er handónýtt. Við getum svo sem hætt að hlusta á sveitarfélögin. Við fáum þau inn, þau vilja koma inn og benda á ýmislegt. Hv. þingmaður benti í ræðu áðan á Davíðshús og einhverja hluti sem njóta ekki sannmælis og er með tillögu til þriðja geirans sem hefur svo sannarlega verið út undan, en það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að segja að meiri hluti fjárlaganefndar sé alveg ómögulegur og gera svo nákvæmlega það sama og hann. Það gengur ekki upp. Við þurfum að endurskoða þetta kerfi. Við þurfum að gera það strax eftir áramót.