145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ef ég ætti að forgangsraða peningunum núna mundi ég frekar setja þá í barnabætur en vaxtabætur. Þær fara til fólks sem þó á húsnæði sem er í mörgum tilfellum betur sett en fólk á leigumarkaði sem við sinnum alls ekki nógu vel. Varðandi barnabæturnar þá má fólk eiginlega varla hafa laun. Þær byrja að skerðast, held ég, við 200 þús. kr. laun. Ég væri mikið til í að skoða kerfi eins og í Danmörku, og eins og hefur reyndar verið bent á af Velferðarvaktinni, að ég held, að vera með barnatryggingar og jafnvel ekki tekjutengdar. Ég held líka að við þurfum að passa okkur á að fara ekki með tekjutenginguna alveg út í öfgar.

Ég mundi vilja að barnafólk fengi almennilegar barnabætur. Við erum ekki að standa okkur þegar kemur að barnafjölskyldum á Íslandi. Það er eflaust ástæðan fyrir því að mjög margar fjölskyldur flytja til Norðurlandanna. Við missum þær út af því. Ekki endilega af því að tækifærin séu ekki til staðar hér heldur vegna þess að þær verða út undan. Það er erfitt að vera í námi með börn eða vera að koma sér þaki yfir höfuðið á Íslandi. Ég þekki það af eigin raun, ég fór og lærði í Danmörku. Ég hefði bara ekki getað það hér á Íslandi.