145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta gerðist í rauninni í fyrra. Það var fyrst þegar við fengum breytingartillögurnar afhentar að við sáum að þær voru farnar að teygja sig yfir í liði sem við töldum að væru inni í ráðuneytunum. Þarna kennir ýmissa grasa. Þá var talað um að þriðji geirinn hefði gleymst og við getum svo sem alveg verið sammála um að kerfið væri ekki endilega alveg fullkomið. En nú erum við að taka það til baka og fara í gömlu súpuna í staðinn fyrir að þróa og reyna að finna leiðir til að bæta kerfið sem við vorum komin með. Það sem gerist núna er að það koma bara enn fleiri liðir inn í fjárlagafrumvarpið. Það er bara ekki gott. Auðvitað endum við svo á að tala hérna um litlu upphæðirnar. En þetta eru samt vinnubrögðin og þau segja svo mikið. Ég skil alveg að það er freisting að hafa þessi völd en við verðum einhvern veginn að hemja okkur.