145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:06]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Ég og flokkur minn gagnrýndum mjög þetta fyrirkomulag á síðasta kjörtímabili af því að það býður upp á ákveðna tegund af spillingu, stundum ósýnilega spillingu en líka oft mjög sýnilega. Oft er talað um að þetta sé misnotað eða hafi verið misnotað í gegnum tíðina, sér í lagi af þingmönnum úti á landi. Það var altalað þegar ég kom hingað og hafði í raun enga reynslu eða forsendur hvað þetta varðar, en maður sá hvernig fjármunum var ráðstafað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji þetta vera afturför. Er ekki gagnlegra að vera með meira gagnsæi í kringum þessi ferli í ráðuneytunum? Og ef þetta á að vera svona, telur hv. þingmaður gagnlegt að nefndarfundir þar sem fjallað er sérstaklega um safnliði séu haldnir í heyranda hljóði og jafnvel útvarpað?