145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að stilling einkenndi nú ekki framgöngu hæstv. forsætisráðherra á fundinum fyrr í dag, og kannski að vonum þar sem dregið hefur verið rækilega fram að aldrei hefur vanbúnara fjárlagafrumvarp komið fram til 2. umr. og meinlegar villur ofan á allt annað komið í ljós í frumvarpinu eins og það stendur núna.

Það framferði hefur hleypt allri umræðunni í hnút og vil ég þess vegna árétta tillögu mína við virðulegan forseta um að hann geri hlé á þessari umræðu en vísi frumvarpinu aftur til meðferðar í fjárlaganefnd þannig að það megi koma hingað sæmilega búið aftur til 2. umr.

Ég vil líka nota tækifærið, vegna þess að nú er gengið á tólfta tímann, og inna forseta eftir því hversu lengi hann hyggist halda umræðunni áfram fari hann ekki að ráðum mínum og geri hlé á henni núna.