145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það voru margir hugsi eftir upphlaup hæstv. forsætisráðherra í dag sem endurspeglaði óvenjulega mikla vanstillingu. Maður er svolítið hugsi yfir því hver staðan er á stjórnarheimilinu þegar maður sér slíkt upphlaup af hendi forsætisráðherrans sjálfs en við höfum svo sem verið að fylgjast með undanfarna daga mjög erfiðu ástandi hjá mörgum stjórnarliðum og raunar endurspeglast mjög mikil spenna á milli stjórnarflokkanna í stórum málum, eins og í umræðunni um aldraða og öryrkja, um Landspítalann og um Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er kannski skýrasta dæmið akkúrat þessa dagana þegar annars vegar er sagt að það standi ekki til að gera neitt í málinu og hins vegar kemur hæstv. menntamálaráðherra í sjöfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld og segist vera með tillöguna og vera enn þá mjög vongóður.

Í tilefni af því vil ég geta þess sem hefur verið rætt hér áður að stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) mun auðvitað leggja fram breytingartillögu við bandorm og við útgjaldahlið fjárlagafrumvarps (Forseti hringir.) sem verður í samræmi við þá tillögu sem hæstv. ráðherra hefur boðað (Forseti hringir.) og hefur enn ekki birt þannig að hann getur þá stutt hana hér í þingsal og aðrir stjórnarliðar sem unna Ríkisútvarpinu.