145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það sem er að þessari fjárlagaumræðu er að við erum að taka ákvarðanir um fjárlög sem ætti með réttu að taka með allt öðrum hætti. Það er vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa ekki lagt fram þau mál sem þeim ber að leggja fram. Ég fór yfir örfá dæmi í ræðu minni, ég hefði getað haft þau miklu fleiri ef ég hefði viljað, dæmi um samgönguáætlun, þingsályktunartillaga um fullveldishátíðarhöld, áætlun um þróunarsamvinnu og stefnumótandi ákvarðanir um framhaldsskólana. (Gripið fram í.) Allt er þetta bara afgreitt í gegnum fjárlög. Af hverju? Af því að hæstv. ráðherrar koma ýmist ekki með málin eða málin sitja föst. Ríkisútvarpið var nefnt hér áðan. Við erum búin að sjá einhverjar þingsályktunartillögur sem síðan hefur dagað uppi og svo er verið að afgreiða þær í gegnum fjárlög.

Herra forseti. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð. Mér finnst Alþingi setja niður við þessi vinnubrögð. Við erum látin ræða málin fram á nótt til að tryggja að enginn þarna úti taki eftir því hvernig vinnubrögðin (Forseti hringir.) eru í raun og veru á Alþingi. Hæstv. forseti og stjórnarmeirihlutinn komast ekki upp (Forseti hringir.) með slíka meðvirkni með þessum aumu vinnubrögðum. Við getum auðvitað haldið áfram að tala hér endalaust, en það er heldur enginn bragur á því. Forsætisnefnd ætti að fara (Forseti hringir.) yfir þetta mál með ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem koma ekki með málin hingað inn. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)