145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp undir liðnum um fundarstjórn til að fara fram á það við hæstv. forseta að slíta fundi og fresta umræðu um þetta mál. Það kom fram í máli methafans mikla, hæstv. forsætisráðherra, hér í dag að hann vildi gefa okkur sviðið. Hann virtist halda að störukeppni sé líkleg til að vinna gegn sundrungu og óeiningu. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að taka stjórn á þinginu, slíta hér fundi og fara að vinna að því að fólk fari að tala saman.

Við í stjórnarandstöðunni erum fjórir flokkar sem standa saman að 33 heilsteyptum breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið. Hugsjónaeldurinn í okkar brjósti gerir okkur kleift að tala hér út í hið óendanlega því að mikið er í húfi. Ég held að hæstv. forseti ætti að fá hæstv. forsætisráðherra til að átta sig á því.