145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:27]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ef mér skjátlast ekki er þetta sjöunda nóttin sem við stefnum inn í með umræðu um fjárlagafrumvarpið. Stjórnarmeirihlutinn virðist einmitt álíta að málefnið snúist um ræðufjölda og tímalengd. Við fengum þau napurlegu skilaboð í afar hrokafullu svari hæstv. forsætisráðherra í dag að hér væri ekki um neitt að semja og ekki um neitt að ræða.

Við erum að tala um ráðstöfun ríkisfjármuna. Við erum að tala um eðlilega kröfu um leiðréttingu til handa öldruðum og öryrkjum. Það er eiginlega algerlega með ólíkindum að forsætisráðherrann skuli telja að engin ástæða sé til að endurskoða nokkurn skapaðan hlut eða leggja eyru við því sem rætt er á þessum vettvangi um það mál. Það skýrist kannski af því að forsætisráðherra var sjálfur fjarverandi þegar við greiddum atkvæði um (Forseti hringir.) breytingartillögu stjórnarminnihlutans um að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja aftur í tímann. Hann lét hins vegar fótgönguliðum sínum það eftir að segja (Forseti hringir.) nei með eigin röddu við þeirri tillögu, sem var til skammar.