145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Heimsmet, Íslandsmet, söguleg met, alla vega met. Ég er farin að hafa pínulitlar áhyggjur af þessu metablæti framsóknarmanna og velti fyrir mér hvort menn þurfi ekki að fara að fá einhverja þerapíu við því.

En förum aðeins yfir það að vissulega hefur það gerst í gegnum tíðina að menn hafa talað í umræðum um fjárlög og það er eðlilegt. Þetta er stórt stefnumótandi plagg. En ég man eftir því að hér féll met einu sinni árið 2012 þegar þáverandi stjórnarandstaða ákvað að taka fjárlögin í gíslingu. Veltum því aðeins fyrir okkur og rifjum upp hvernig það var. Það var til að stöðva framgang frumvarps um stjórnarskrá, nýja stjórnarskrá okkar Íslendinga. Það var málstaðurinn á þeim tíma.

Að þessu sinni erum við hér að berjast fyrir því að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt. Við erum að berjast fyrir auknum fjármunum til Landspítalans, við erum að berjast fyrir styrkingu menntakerfisins, við erum að berjast fyrir grundvallarþáttum okkar samfélags. (Forseti hringir.) Ef einhver met falla í ræðum samhliða því þá skammast ég mín ekki fyrir það.