145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig undrar eiginlega dálítið að fulltrúar stjórnarflokkanna sem ég hef heyrt í hér ræði einmitt fyrst og fremst um tímalengd umræðunnar. Ég er dálítið hissa á því af því að hér hafa komið fram nokkuð mikilvægir punktar, ekki bara breytingartillögunnar sem við vorum með til umræðu heldur líka vinnulag sem ég hefði haldið að þingmenn, sama hvar í flokki þeir standa eða sitja, ættu ekki að vera sérstaklega ánægðir með.

Ég velti fyrir mér úr því að ekki fást svör í þessari fjárlagaumræðu við því hvort ekki sé ástæða til að við gefum okkur tíma til þess á morgun, t.d. undir liðnum um störf þingsins, að átta okkur á því hvort hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans finnst það ásættanlegt að hafa enga samgönguáætlun, hvort þeim finnst ásættanlegt að hafa enga áætlun um þróunarsamvinnu, hvort þeim finnst ásættanlegt að afgreiða svona mál í fjárlögum, hvort þeir hafi ekkert um það að segja annað en þeim finnist þessi umræða taka voða tíma.

Ég er dálítið hissa á þessu vinnulagi. Ég hefði haldið að þingmenn stjórnarmeirihlutans hefðu áhuga á því að ráðherrarnir sem sitja í umboði þeirra stæðu sig betur.