145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:37]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara viðurkenna það að ég áttaði mig fyrst á því núna rétt áðan að ég þyrfti leyfi hv. þingflokksformanns Samfylkingar til að flytja ræður á Alþingi og hann upplýsti áðan að hann væri hugsanlega tilbúinn að leyfa mér að flytja ræður hér að degi til. (Gripið fram í.) En ég mun gæta þess vandlega framvegis að fá leyfi frá hv. þm. Helga Hjörvar til að flytja ræður að degi til eins og aðrir þingmenn, þannig að það er ágætt að vita þetta.

Varðandi kjör aldraðra og öryrkja — þessi umræða er að verða ansi súr. Þeir fengu 3% hækkun um síðustu áramót, eru að fá 9,7% um þessi áramót og það stefnir í að þeir fái 8% áramótin 2016–2017. Þar að auki hef ég ítrekað það ásamt fleiri þingmönnum míns flokks að þeir nái 300 þús. kr. lágmarksgreiðslum á mjög skömmum tíma.

Um hvað erum við að rífast hér? Þetta eru mestu kjarabætur sem þessir hópar hafa fengið í áratugi. (Gripið fram í: Nei, nei.) Að halda því fram að hér sé verið að ganga á hlut aldraðra og öryrkja er bara fásinna.