145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Góður vinur minn og félagi vitnaði í dag til Ríkis og rökvísi stjórnmála eftir Pál Skúlason vegna ummæla og framkomu forsætisráðherra. Þar segir, með leyfi forseta:

„Lýðræði er ekki það að tiltekinn flokkur eða hópur fólks fari fram með offorsi og komi vilja sínum fram án þess að fjöldi annarra í samfélaginu fái rönd við reist.“

Það er ágætt að hafa það í huga þar sem stjórnarflokkarnir virðast telja að þar sem þeir eru með góðan meiri hluta geti þeir komið hér fram með ofbeldi eins og þeir gera hér. Þeir þröngva inn ákveðnu ákvæði eða framferði í fjárlög sem getur ekki gengið eins og það kemur fyrir. Stofnanirnar geta ekki rekið sig með þessu framlagi. Eldri borgarar og öryrkjar sitja eftir. Hvaða prósenta er það sem hv. þm. Karl Garðarsson fer hér með? (Forseti hringir.) Þeir borða ekki prósentur, það er bara þannig, því miður.