145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. forseta rétt áðan um atkvæðagreiðsluna sem fram fór í dag vil ég einungis ítreka það sem ég sagði þá. Ég sagðist mundu styðja það að hér yrði fundur, enda væri það minn skilningur að hann stæði ekki fram yfir kl. 12. En allt vald er hæstv. forseta gefið og hvað sem hann vill beygi ég mig undir. Hins vegar tel ég að þingið ætti nú alvarlega að hugsa sinn gang.

Ég nefndi áðan að sú staða sem við erum í væri bein afleiðing af þeirri öfugþróun sem orðið hefur síðustu þrjú árin, eða frá því að ný ríkisstjórn tók við, sem birtist í því að framkvæmdarvaldið er aftur að heimta allt of mikið vald í sínar hendur. Það var ein af meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að svo hefði farið sem fór vegna þess að framkvæmdarvaldið hefði hrifsað of mikið vald frá löggjafanum. Okkur tókst góðu heilli að snúa því töluvert við. Þingið var miklu sjálfstæðara síðari hluta (Forseti hringir.) upprisuáranna en nú er allt að falla í sama farið og ég tel að við þurfum að skoða þessa þróun (Forseti hringir.) ákaflega vandlega. Hér er stjórnarandstaðan með 33 tillögur og hún fær ekki áheyrn fyrir eina.