145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við höfum talað um þetta áður. Við héldum að við ætluðum að koma okkur inn í siðaðri tíma þar sem við ræddum það hvað við yrðum lengi og settum okkar einhvern ramma. Ég held að enginn hér inni hafi greitt atkvæði gegn þessum kvöldfundi en það væri allt í lagi, vegna þess að við erum fólk með skuldbindingar á ýmsum stöðum og heima hjá okkur, að fá upplýsingar um það hvenær menn ætla að ljúka fundi svo að hægt væri að gera ráðstafanir.

Það er sérkennilegt og svolítið púkalegt valdatæki að ætla ekki að segja okkur hvenær við klárum þennan fund eins og það sé eitthvað sem skipti máli í hinu stóra samhengi. Ég held ekki. Við erum búin að fá þau svör frá forsætisráðherra að hann hafi engan áhuga á því að mæta tillögum okkar varðandi kjaramál eldri borgara og öryrkja. Það eru hins vegar margir þingmenn í þessum þingsal sem hafa kannski aðra skoðun. Við ættum að fá ráðrúm til að setjast niður með þeim og ræða hvort (Forseti hringir.) þingið sé tilbúið, þó að ríkisstjórnin sé það ekki, að bæta kjör eldri borgara og öryrkja eins og við höfum lagt til.