145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:27]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa sárum vonbrigðum með það að sá forseti sem nú situr á stóli skuli feta rakleitt í fótspor þess sem áður sat hér fyrr í kvöld. Það er alveg ömurlegt að sjá forseta þingsins hvern af öðrum lafa eins og strengjabrúður í bandi forsætisráðherra sem kastaði grímunni eftirminnilega fyrr í dag þegar hann sendi út fyrirmæli úr þessum ræðustóli til þingmanna stjórnarmeirihlutans, fótgönguliðanna, og lét sig síðan hverfa því að ekki hefur hann verið viðstaddur þessar umræður og ekki var hann staddur hér þegar fótgönguliðarnir sögðu nei við þeirri tillögu að leiðrétta kjör öryrkja og aldraðra.

Það er alveg hreint ömurlegt að verða vitni að þessu og furðulegt að ekki sé hægt að fylgja nútímalegum samskiptaháttum (Forseti hringir.) og almennilegu siðferði á vinnustað með því að gefa upp hver vinnuáætlunin er.