145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér eru þingfundir almennt haldnir til kl. átta en það var samþykkt að veita heimild til kvöldfundar. Stjórnarandstaðan gerði ekki athugasemdir við það. Hins vegar finnst mér eðlilegt, í ljósi þess sem ég sagði um þá atkvæðagreiðslu fyrr í dag, að við gerum þá kröfu að slík tilhögun verði rædd fyrir fram í hópi þingflokksformanna og forsætisnefndar. Mér finnst líka eðlilegt að það sé rætt við okkur hversu lengi eigi að halda þingfundi áfram. Þetta hefur mér reyndar fundist öll þau átta ár sem ég hef verið á þingi. Ég skil ekki þau samskipti sem fara alltaf í gang hér í hvert einasta skipti sem kvöldfundur er þar sem er haldið uppi einhverju taugastríði og ekki er komið upp um hversu lengi eigi að halda fundi áfram. Þetta er fráleitt og fáránlegt.

Ég velti því fyrir mér (Forseti hringir.) hvenær við fáum forseta á þing sem treystir sér til að rjúfa þetta hegðunarmynstur. Hvenær fáum við forseta á þing sem treystir sér til þess? (Forseti hringir.) Verður það í minni tíð hér (Gripið fram í.) eða þarf ég að vera jafn lengi og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á þingi í von um að (Gripið fram í: Já, já.) einhvern tíma komi (Forseti hringir.) forseti á þing sem treystir sér til að breyta þessu? Þetta er fáránlegt. (Gripið fram í: Það líst okkur á.)