145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:33]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Á laugardaginn var haldinn fundur með forsetum þingsins og fulltrúum allra flokka hér. Þar var því hreyft hvort við ættum kannski að prófa að þessu sinni að gera þetta einhvern veginn öðruvísi, jafnvel að reyna að setja niður verkefnin fram undan og átta okkur á því hvað menn næðu raunverulega að klára og hvað ekki og reyna að ná einhverju samkomulagi um það og einhverju utanumhaldi. Farið var af stað í þá vinnu að skrifa það upp, en svo kom forsætisráðherra hér í dag og lýsti skoðun sinni á þeirri vinnu fulltrúa stjórnmálaflokkanna á Alþingi og þar með fór það.

En ef við værum nú bara praktísk, ef maður væri verkstjóri hér og velti því fyrir sér hvað það er sem á eftir að klára kæmi í ljós að það er það heilmikið. Það á eftir að ræða bandorminn í 2. og 3. umr., það á eftir að fara í 3. umr. fjáraukalaga, 3. umr. fjárlaga eftir þessa umræðu, menn vilja fá umræðu um opinber fjármál, fjármálaráðherra vill koma nýju seðlabankafrumvarpi í nefnd, félags- og húsnæðismálaráðherra vill koma húsnæðisfrumvörpum á dagskrá o.s.frv. Hvað eru margir dagar til jóla? (Forseti hringir.)

Ég skora á forseta þingsins að reyna að ná nú einhverjum tökum á þessu og tala við forsætisráðherra um það og minna hann á hvers konar málafjöldi bíður hér og koma einhverju skikki á þetta.