145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir kröfu hv. þingmanna Össurar Skarphéðinssonar og Ögmundar Jónassonar og vænti þess að frú forseti sé að gera ráðstafanir til að kalla hingað í hús hæstv. heilbrigðisráðherra, sem vissulega þarf að svara ákveðnum spurningum um þau gögn sem Landspítalinn hefur lagt fram og hefur ekki enn þá gert það, svo ég tali nú ekki um hæstv. menntamálaráðherra. Við fengum af því fregnir í kvöldfréttum að hæstv. ráðherra ætti í vandræðum með að koma frumvarpi sínu um Ríkisútvarpið í gegnum ríkisstjórn því að ekki væri stuðningur við það í stjórnarflokkunum.

Hér hafa verið lagðar fram ýmsar spurningar sem snúast um útvarpsgjaldið og upphæð þess og Ríkisútvarpið og stöðu þess og enginn til þess bær að svara þeim annar en hæstv. menntamálaráðherra, sem á að sjálfsögðu að taka þátt í þessari umræðu því að það sem hefur gerst í henni er að þær yfirlýsingar sem hann kom með í haust virðast ekki standast. Ég tek því undir þessa kröfu og vænti þess að frú forseti bregðist við henni.