145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er komin í mína þriðju ræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2016 og að þessu sinni ætla ég að ræða einkum tvennt. Það eru annars vegar met af ýmsu tagi, fara aðeins yfir staðreyndir í því máli og síðan lífeyrismálin að sjálfsögðu. Mig langaði fyrst að nefna eitt í tilefni þeirra yfirlýsinga sem komu í morgun frá hæstv. forsætisráðherra og fleirum um að við virtumst vera að slá gamla metið hans að ég er mjög illa að mér í metum og veit ekki hvort við erum að slá met. Það er ekki nógu mikill íþróttamaður í mér.

En ég fór að skoða þetta fyrra met og hvað það var sem — ég veit hvað knýr okkur áfram núna. Við erum með 33 breytingartillögur um umboðsmann Alþingis, græna hagkerfið, háskólamál, framhaldsskólamál, listir og menningu, byggðaáætlun og sóknaráætlun, löggæsluembættin, hælisleitendur, Fangelsismálastofnun, Vegagerðina, almannatryggingar, Fjölmenningarsetur, Sjúkrahúsið á Akureyri, Landspítala, félagsmál af ýmsu tagi, fæðingarorlof, barnabætur og loftslagssjóð. Þetta eru þær breytingar sem við erum að berjast fyrir af því að við teljum þær mikilvægar fyrir íslenskt samfélag og svo stór samkeppnismál þarna.

Þetta met sem hæstv. forsætisráðherra virðist óttast að við séum að slá — ég fór að velta fyrir mér, fyrir hverju var þá verið að berjast? Hvað var það sem knúði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk áfram? Jú, í nefndarálitinu er talað um slæleg vinnubrögð, og höfðum við þá ekki fengið að upplifa vinnubrögð eins og viðhöfð eru í þessari fjárlagagerð, þannig að það væri nú eðlilegt að við gætum talað jafnvel lengur. Hvaða breytingartillögur komu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur með í þeirri sérlega löngu fjárlagaumræðu? Ég fór að skoða það. Það voru engar breytingartillögur frá þeim flokkum við 2. umr. Nei, nei. En við 3. umr. fór aðeins að renna í þeim blóðið og Framsóknarflokkurinn lagði fram eina breytingartillögu sem var hækkun á sóknargjöldum um 286 millj. kr.

Sjálfstæðismenn, þar var Kristján Þór Júlíusson, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, flutningsmaður að tillögu sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd og hann vildi lækka útgjöldin um 3.300 millj. kr. með eftirfarandi hætti, og við skulum hafa í huga að þessi maður er heilbrigðisráðherra í dag. Hann vildi lækka skatta á áfengi um 500 millj. kr. Hann vildi lækka skatta á tóbak um 1.000 millj. kr. Hann vildi lækka sykurskatt um 800 millj. kr. og vörugjald af bensíni um 1.000 millj. kr. Þetta voru tillögur Sjálfstæðisflokksins að ógleymdri viðbótartillögu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, núverandi varaformanns fjárlaganefndar, sem vildi lækka tekjur ríkisins um 6 milljarða kr. með því að fresta um ár hækkun á gistináttaskatti, vaski, hækkun á vaski til að hafa auknar tekjur af ferðamönnum. Við hefðum nú getað sagt okkur það fyrir þegar maður horfir til baka að tillögur sem þessar sem ollu 50 klukkustunda umræðu, þetta var svo mikið kappsmál, að fólk sem ber uppi svona tillögur og talar svo um þær í 50 klukkutíma, ekki er nema von að það skapi eingöngu ófrið í fjárlagagerðinni. En þetta var ótrúleg lesning og furðulegt að sjá.

Auðvitað voru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn ekki að berjast fyrir velferðarkerfinu, eins og við sáum á þeim tillögum, hvorki í heilbrigðiskerfinu né almannatryggingum og vinnubrögðin voru ekki stóra málið. Stóra málið var að koma í veg fyrir að hér væri hægt að fara í langþráðar breytingar á stjórnarskrá. Og það er metið sem hæstv. forsætisráðherra óttast að okkur takist að slá.

En þá að máli málanna sem eru svik Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við lífeyrisþega landsins. Margar tölur og prósentur hafa verið nefndar í þessari umræðu og ég tel tímabært núna þegar klukkan er að halla í tvö að nóttu, aðfaranótt 15. desember, að fara aðeins yfir út á hvað þetta gengur. Það er þannig að deilt er um hversu mikið bætur almannatrygginga eiga að hækka og til hvaða tímabils hækkunin á að ná. Ríkisstjórnarflokkarnir leggja til að bætur almannatrygginga hækki um 9,7% frá og með 1. janúar 2016. Við leggjum til að bæturnar hækki um 10,9% frá og með 1. maí 2015. Munurinn á þessu er sá að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að fylgja launavísitölu en snuða lífeyrisþega um launaskriðsþáttinn og ætla ekki að fylgja fordæmi um það að láta bætur almannatrygginga hækka til samræmis við lágmarkslaun og ekki gera það afturvirkt.

En við viljum ekki bara að bætur almannatrygginga hækki um 10,9% afturvirkt heldur að þær hækki þar til viðbótar um 5,9% frá 1. maí 2015.

Þá ber að geta þess að við erum að tala um — ef við tökum lífeyrisþega sem býr einn, er með heimilisuppbót og sérstaka framfærsluuppbót af því að hann hefur litlar eða engar tekjur annars staðar frá, þá er viðkomandi einstaklingur í dag með 225 þús. kr. á mánuði. Með hækkuninni sem ríkisstjórnin boðar yrðu það 247 þús. kr. á mánuði en við viljum að það verði 255 þús. kr. á mánuði og fari síðan upp í 270 þús. kr. frá og með 1. maí 2016 og fylgi þannig lágmarkslaunum. Nú er þetta engin ofrausn. Þetta eru mjög hóflegar tillögur í ljósi þess að á vinnumarkaði eru sárafáir á lágmarkslaunum, þannig að fyrir þá sem eru viðvarandi með þessar tekjur þá eru litlir fjármunir til framfærslu. Tillögur okkar eru svo sanngjarnar sem verða má og það verður að myndast samstaða um það hér í þessum sal, ekki bara að hækka tekjur eða lífeyristekjur lífeyrisþega afturvirkt og um 10,9% og síðan 5,9%, heldur að fara yfir það hvernig við tryggjum að allir lífeyrisþegar séu yfir fátæktarmörkum. Það tekst okkur ekki í dag. Þetta verðum við að bindast sammælum um. En með því að hafna sanngjarnri kröfu okkar og ekki bara kröfu okkar, þetta eru endurómaðar kröfur Landssambands eldri borgara og Öryrkjabandalags Íslands um afturvirkar hækkanir til 1. maí 2015 og að bætur hækki til samræmis við laun. Með því að hafna þessari sanngjörnu kröfu eru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð á Íslandi.

Við erum til í að slá heimsmet til að hnekkja þeirri ósanngjörnu ráðstöfun og hlæjum framan í forsætisráðherra sem hefur í hótunum og ógnar með störukeppni.