145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er tvennt sem vekur mig til umhugsunar. Annars vegar fannst mér afar áhugavert þegar hv. þingmaður rakti breytingartillögur sjálfstæðismanna á síðasta kjörtímabili við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2013, þ.e. á haustþingi 2012. Mér fannst það ekki síst áhugavert vegna þess að fyrir tillögunni fór þáverandi hv. þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra, Kristján Þór Júlíusson. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndi nokkrar tillögur sem stríða beinlínis gegn lýðheilsustefnu og lúta að lækkun á sykurskatti og öðrum slíkum áhugamálum sem í minningunni falla almennt undir hið víðtæka skattalækkunarblæti sem rúmar eiginlega allt sem heitir skattalækkanir. Hins vegar er það ekki minna áhugavert, þegar maður dregur það inn í samhengi núverandi kjörtímabils og þeirrar stöðu sem hæstv. ráðherra er í, að núna skuli sá þingmaður sem lagði til lækkun á sykurskatti á sínum tíma vera heilbrigðisráðherra sem hefur ekki fengist til að ræða tillöguna um áfengi í búðir og er meðlimur í ríkisstjórn sem hefur talað fyrir lækkun á sykurskatti. Þetta ýtir enn frekar á kröfuna um að ráðherrann komi til viðtals í þingið, þessi upprifjun hv. þingmanns, (Forseti hringir.) því að lýðheilsustefna íslenska ríkisins og stefna hæstv. heilbrigðisráðherra virðast alls ekki ríma saman.