145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um áherslur hennar í málefnum öryrkja og aldraðra og ítreka að stjórnarandstaðan stendur saman að því að flytja tillögur um afturvirkni í ætt við það sem hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði. Hv. þingmaður vísaði þarna í tölur og hve lágar þær væru og hve erfið framfærslan væri hjá tekjuminnsta fólkinu.

Í útvarpsþætti um helgina blandaði hæstv. fjármálaráðherra sér í þessa umræðu og formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, tók málið upp á þingi í morgun. Mig langar að heyra mat hv. þingmanns á því hvort framganga hæstv. fjármálaráðherra sé hluti af þeirri umræðu sem nú fer fram á þingi um fjárlögin. Er það mat hv. þingmanns að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafi verið að réttlæta með yfirlýsingum sínum framgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum og öldruðum? Var hann að réttlæta það að halda þeim utan þess fyrirkomulags sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði gagnvart afturvirkni og réttlæta það að þessum bótum, þessum framlögum, greiðslum frá almannatryggingum úr ríkissjóði sé haldið í algeru lágmarki? Hvert er mat hv. þingmanns á því?