145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:25]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mat mitt á því er að það sé einmitt tilgangurinn að réttlæta það að sniðganga eða neita stórum hópi þjóðfélagsþegna um sanngjarnar kjarabætur til jafns við aðra. Ég sagði fyrr í dag í andsvari við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur að ég hefði andstyggð á þessum málflutningi ráðherrans.

En það er nú þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn í þessari umræðu. Hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hélt fund í fjárlaganefnd til að grafast fyrir um fjölda öryrkja og hverju það mætti sæta og var með ýkjusögur um fjölda þeirra hér á landi svo það þurfti að leiðrétta hana. Formaður stjórnar Tryggingastofnunar, Stefán Ólafsson, þurfti að leiðrétta þetta, ég ætlaði að segja bull en það er kannski svo dónalegt. En þá var verið að ýta undir það að hér á landi væri einhver hópur fólks sem væri að misnota sér kerfið. Þetta er sá málflutningur sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sameinast um þegar talað er um fólk sem á við langvinna sjúkdóma, fötlun og veikindi að stríða. Að gera því skóna að þar sé nú fólk gjarnan að ljúga sig inn í bótakerfið er andstyggilegur málflutningur. Við eigum ekki að leyfa honum að þrífast því að það grefur undan velferðarkerfinu okkar og gerir lítið úr fólki sem á að eiga vörn í okkar fulltrúum hér á Alþingi.