145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Ágæti forseti. Hér hefur orðið einhver hrapallegur misskilningur. Hv. þm. Ögmundur Jónasson óskaði eftir því við góðar undirtektir annarra þingmanna að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði færður til þings. Hvað sjáum við svo, hæstv. utanríkisráðherra! Nú hef ég að vísu ekkert á móti því að sjá hæstv. utanríkisráðherra og hann á hrós skilið fyrir að koma þó hingað til þings. En það var bara ekkert verið að biðja um hann og ég ætla ekki að fara að rifja hér upp góðar sögur sem hægt var að segja af þessu tilefni en minni hér á Jón Sigurðsson og Árna Johnsen frá sínum tíma, en það er önnur saga.

Hins vegar er það þannig að ég tel að það sé alveg sjálfsögð krafa þegar við ræðum hér fjárlagafrumvarpið að í fyrsta lagi formaður fjárlaganefndar sé viðstödd og hún er það ekki. Það er náttúrlega til vansa. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi að sá ráðherra sem margoft hefur verið óskað eftir því að fólk fái að eiga orðastað við komi a.m.k. til umræðunnar og sýni sig þótt ekki væri nema í klukkutíma. (BirgJ: Heyr, heyr.)