145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka forseta fyrir það að gefa okkur upp að hann hyggist svara spurningum þingmanna þegar þessari lotu um fundarstjórn forseta lýkur. En mig langar að bæta því við að það er eðlilegt að ráðherra almannatrygginga sé við umræðuna, sem sagt hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra, vegna þess að stærstu tölurnar sem við ræðum hér varða aldraða og öryrkja og afturvirkni þeirra hækkana. Það er því sjálfsagt mál að hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir sé líka hér og ég óska eftir því að forseti geri henni viðvart um að hennar sé óskað í þingsal.

Svo verð ég að taka undir að það er svolítið kómískt að utanríkisráðherra sé hér. Ég man eftir því að við höfum verið hér á annan ef ekki þriðja dag að óska eftir því að utanríkisráðherra væri hér í þingsalnum og þá sást hann ekki vegna þess að hann var þá á aðskiljanlegustu fundum úti um land í Skagafirði og á Vestfjörðum og var svo farinn til útlanda daginn eftir o.s.frv. Þá gat hann ekki verið hér í þingsal en núna er hann kominn.