145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér stendur yfir hamrandi umræða um fjárlög og við ræðum stóra pósta eins og almannatryggingar og heilbrigðismál einna helst, en einnig Ríkisútvarpið. Það er svo furðulegt með þessa ríkisstjórn að það virðist vera svo landlæg leti í þeirra röðum að menn sýni ekki einu sinni þann lit að stinga þó inn nefinu og sýna að þeir láti sig einhverju varða sína málaflokka og koma og bera í bætifláka og færi rök fyrir gjörðum sínum.

Var ekki hæstv. forsætisráðherra að hampa því fyrr í dag að nú þyrfti bara ekkert að halda ríkisstjórnarfundi á meðan þessi umræða væri í gangi. Þetta er með ólíkindum. Það er eins og það renni ekki í þeim blóðið.

Herra forseti. Ég legg til að aftur verði farið í það að kalla til fólk hér til fundar, (Forseti hringir.) þá hæstv. ráðherra og formann fjárlaganefndar sem óskað hefur verið eftir.