145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ýmiss konar lausung hefur hæstv. forseti leyft að viðgangist hér í þinginu á umliðnum missirum og jafnvel árum. En ég man ekki til þess í fljótu bragði að forseti hafi haldið áfram þingfundi um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar við 2. umr. án þess að formaður fjárlaganefndar væri við umræðuna. Ég held að það hljóti að vera algert einsdæmi að formaður fjárlaganefndar, sem flytur þær breytingartillögur sem hér eru til efnislegrar umræðu, sé ekki viðstaddur umræðuna og verður forseti að minnsta kosti að tryggja að hann sé hér.

Einnig er sjálfsagt að ráðherrar verði við óskum um að þeir komi hingað til umræðunnar. Þannig tilkynnti hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson fjárlaganefnd að menntamálaráðherra mundi leggja fram frumvarp um útvarpsgjaldið. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekkert sé að marka yfirlýsingar fjármálaráðherra hjá fjárlaganefnd og hvers vegna hann hefur yfirgefið (Forseti hringir.) menntamálaráðherra sinn, Illuga Gunnarsson í þessu máli frá því að hann studdi hann í því í haust?