145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa komið en ég vil jafnframt krefjast þess að þeir ráðherrar sem þingmenn hafa kallað eftir að komi hingað í hús til að eiga samræður við, komi hingað án tafar og ef ekki er hægt að fá þá í hús áður en næstu ræður hefjast að forseti geri hlé á þingfundi eða þá greini frá því, eins og forseti hefur lofað, hvaða ráðherrar ætli sér að mæta hingað.

Síðan fer ég jafnframt fram á að formaður fjárlaganefndar drífi sig hingað. Mér finnst mjög einkennilegt að formaður fjárlaganefndar sé ekki hér í húsi, ég verð að segja alveg eins og er. Þá vona ég að ég eða aðrir þingmenn þurfum ekki að koma hingað upp um fundarstjórn forseta og að forseti gefi nú almennilegar og greinargóðar upplýsingar og svari þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar.