145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á því að hafa kannski hækkað róminn heldur meira en vert er hér áðan undir fundarstjórninni. Ég geri venjulega ekki athugasemdir við einstök frammíköll en þegar talað er yfir mann í ræðustól þá líkar mér mjög það mjög illa. (ÖS: Ég gerði það ekki? Ég …) — Ég var ekki að tala um þig. (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]

En af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr mig sem starfandi þingflokksformann, sem ég er gjarnan gerður að hér, get ég þó upplýst að ég er örugglega ekki starfandi þingflokksformaður núna í augnablikinu því að Guðlaugur Þór Þórðarson er í húsinu. Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um það — þarna er starfandi þingflokksformaður — að síðast þegar ég vissi var hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir norðan við jarðarför. (Gripið fram í: Hann var hér í kvöld.) — Síðast þegar ég vissi var hann fyrir norðan, (Gripið fram í.) af því að ég var spurður, en ég veit ekki hvar hann er.