145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst nú nóttin ekkert sérstaklega ung, mér finnst hún vera orðin hundgömul og við sem erum búin að vera hérna undanfarnar nætur verðum ekki unglegri við að þurfa að vaka hérna allar nætur til að ræða einhver mál sem þola ekki dagsbirtuna. Það er kannski það alvarlega í þessu að þurfa að ræða þessi mál inn í nóttina þegar fólk sem hefur áhuga á að fylgjast með umræðunni hefur ekki tök á að horfa á alþingisrásina vegna þess að það sefur svefni hinna réttlátu.

Ég hefði gjarnan viljað hafa ráðherra hér í sal til að geta átt orðastað við þá hvernig þeir í ósköpunum geta rökstutt það að aldraðir og öryrkjar eigi ekki að vera jafnsettir og aðrir launþegar landsins að fá afturvirkar bætur. Mig langar að grípa niður í grein eða stuttan pistil eftir Björgvin Guðmundsson. Sá maður er ötull talsmaður aldraðra og öryrkja og hann segir, með leyfi forseta:

„Hægri menn á Alþingi hafa nú gripið til blekkinga á Alþingi til þess að réttlæta aðgerðaleysi sitt í málefnum aldraðra og öryrkja. Þeir segja að bætur aldraðra hafi hækkað um 17,1%! Til þess að fá út þessa tölu leggja þeir saman hækkanir á nokkrum undanförnum árum. Inni í þessari tölu er einnig hækkun sem ekki er komin til framkvæmda heldur verður fyrst innleidd næsta ár. Hvaða gagn hafa lífeyrisþegar í dag af hækkun sem kemur til framkvæmda seinna? Einhleypir aldraðir fá 190 þús. á mánuði eftir skatt. Þegar þeir hafa ekki nóg fyrir öllum útgjöldum og verða að sleppa lyfjum eða læknisheimsókn eða jafnvel matarkaupum, er þeim þá einhver huggun í því að lífeyrir hafi hækkað 2014 eða 2013? Þetta er ekki boðlegur málflutningur. Þetta er ruglmálflutningur. Meira að segja Samtök atvinnulífsins bera það ekki á borð fyrir verkalýðsfélögin í kjaradeilum að þau hafi fengið mikla hækkun fyrir nokkrum árum og þess vegna þurfi þau ekki nýjar hækkanir. Það er engin 17,1% hækkun lífeyris inni í myndinni. Það eru 3% sem lífeyrir hækkaði um í janúar sl. Og meiri verður ekki hækkunin á þessu ári. Allt tal um annað eru blekkingar.“

Þetta skrifar Björgvin Guðmundsson. Við höfum séð í fjölmiðlum undanfarið að þar hefur fjöldinn allur af stuðningsfólki fyrir bættum kjörum aldraða og öryrkja stigið fram á ritvöllinn og skrifað um þessi mál þeim til stuðnings. Og aldraðir og öryrkjar sjálfir hafa verið mjög öflugir í þessari baráttu sinni og vita að það gerist ekkert sjálfkrafa. Menn þurfa að vera fylgnir sér og tala fyrir málstað sínum. Ég held að það hafi sem betur fer náðst að brjótast í gegnum þjóðarsálina núna hvers konar óréttlæti það er að þegar okkur er loksins farið að vegna betur, efnahagur landsins er að stíga, þá eigi þessir hópar sér ekki næga málsvara á þingi til að fylgja eftir kröfum um að rétta hlut þeirra.

Það er oft gripið til þeirra ráða að bera saman þá sem eru illa staddir í þjóðfélaginu, eru láglaunamenn, eru kannski á atvinnuleysisbótum og eru illa staddir, þá sé það réttlætanlegt af því að aðrir ríði ekkert allt of feitum hesti frá sínum kjörum, þá sé það eðlilegt að þessir hópar geti bara haldið aftur af kröfum sínum og verið sáttir við sinn hlut, það sé málflutningurinn. Það hefur maður séð í fjölmiðlum haft eftir hæstv. fjármálaráðherra og fleirum hér inni í þessum þingsal. Skilaboð hæstv. forsætisráðherra til þjóðarinnar í dag og okkar þingmanna voru auðvitað með ólíkindum. Það undirstrikar mikla veruleikafirringu á þeim bænum og það er hálfóhuggulegt til þess að vita að menn hafi ekki meiri skilning á þessum málaflokki. Það er ekki eins og menn hafi ekki úr neinu að spila þó að menn hafi vissulega verið að afsala sér tekjum alveg hægri vinstri frá því að núverandi stjórn tók við. Kannski er fjárlagafrumvarpið og tekjuafgangur ríkissjóðs að fara hríðminnkandi eftir því sem líður á þessa umræðu. Hinir ýmsu þættir eru að koma hingað inn sem gera það að verkum að tekjuafgangur virðist kannski ekki vera eins mikill og áætlað var, fyrir utan það sem ríkið er búið að afsala sér í tekjum, í veiðigjöldum, auðlegðarskatti, orkuskatti og sköttum almennt sem hafa verið lækkaðir á hátekjufólk. Þá er þetta nú ekki góður vitnisburður um hægri menn með framsóknarmenn sem hækju eins og var hér í gegnum árin. Þá var Framsóknarflokkurinn oft stuðningshækja íhaldsins og maður veit í raun og veru ekki hver styður hvern. Það er eins og segir í máltækinu; haltur leiðir blindan, eða öfugt.

Þetta er orðið þannig að hægt er að segja að enginn geti stjórnað landinu og borið ábyrgð á að vel sé farið með almannafé og fjármunum forgangsraðað í þágu samfélagsins, velferðarmála, uppbyggingu innviða, heilbrigðismála og að þeir hópar sem verst standi í þjóðfélaginu séu settir í forgang. Það er auðvitað sá munur á hægri mönnum og vinstri mönnum að vinstri menn setja í forgang samneyslu þjóðarinnar, að allt sé gert sem hægt er til að setja út öryggisnet fyrir þá sem falla fyrir borð með einhverjum hætti, ganga í gegnum alvarleg veikindi, verða fyrir slysi, missa atvinnu eða þrek með einhverjum hætti og fyrir það fólk sem hefur þjónað okkar í gegnum tíðina með framlagi sínu til atvinnulífsins, er orðið fullorðið og hefur skilað svo virkilega sínu til samfélagsins, greitt skatta allt sitt líf, að það geti búið við öruggt ævikvöld eins og sagt er. En það er svo langt í frá að eldri borgarar okkar geti búið við öruggt ævikvöld. Ekki þeir sem hafa ekki digra sjóði á bankabókum. Það sem þeim er boðið í grunnlífeyri og það sem fólki er boðið í örorkubætur er rétt innan við kannski 200 þús. kr. að frádregnum sköttum. Það veit hver heilvita maður að þetta er auðvitað ekki boðlegt og fólk sem hefur haft samband við mann segir: Ég gæti ekki lifað af þessu nema vegna þess að ég lifi mjög naumt og er í gegnum tíðina búinn að komast yfir það að greiða af mínu húsnæði. Ég á mitt húsnæði skuldlaust og þess vegna get ég með því að vera mjög sparsamur náð endum saman á milli mánaðamóta.

En viljum við að stór hópur samfélagsins geti ekki veitt sér neitt, þurfi alltaf að búa við óvissu um að þurfa kannski að eyða meiri fjármunum í lyfjakostnað eða eitthvað komi upp á sem kallar á aukin útgjöld eða bara eytt eins og núna fyrir jólahátíðina? Það er fullt af öldruðum og öryrkjum sem langar að gleðja sína nánustu en geta það ekki vegna þess að fjárhagurinn er bara þannig. Þetta er ekki sagt til að vera með einhvern, hvað má segja, vælutón og hafa umræðuna einhvern veginn á tilfinningalegu nótunum. Þetta er bara kaldur veruleikinn hjá fjölda fólks.

Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar mundu sjá sóma sinn í að endurskoða það að bæta ekki öryrkjum og öldruðum kauphækkanir aftur í tímann á þessu ári eins og aðrir hafa fengið.