145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það að einstaklingar sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni og þurfa kannski frá unga aldri, segjum frá því um tvítugt, að treysta eingöngu á örorkulífeyri eru í allt annarri stöðu. Þeir eiga þá eftir að gera það sem flestir gera; stofna fjölskyldu, eignast þak yfir höfuðið og byggja sig upp og taka þátt í samfélaginu. Þetta fólk hefur ekki sömu möguleika og fólk almennt til að vinna meira, leggja á sig meiri vinnu til að geta framfleytt sér og eignast húsnæði og allt sem fylgir því að eignast fjölskyldu, börn.

Þessir ungu aðilar eru í allt annarri stöðu og það er auðvitað enginn sómi í því að því fólki sem verður snemma öryrkjar út af slysi sé ekki tryggð örugg framfærsla.

Hv. þingmaður kom líka inn á misvægi launa og bóta og að hættulegt væri ef það misvægi yrði aftur til og skörun þar á milli. Ég tel að bætur eða grunnlaun eldri borgara og öryrkja megi alls ekki vera lægri en lægstu laun á vinnumarkaði.