145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir heldur statt og stöðugt fram, eins og margir aðrir stjórnarþingmenn, að örorku- og ellilífeyrisþegar hafi setið eftir eftir að núverandi ríkisstjórn tók við.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún neiti því að með fyrirhugaðri hækkun nú um áramótin hafi ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar ekki fylgt almennri launaþróun í landinu. Er hv. þingmaður að halda því fram að svo sé þrátt fyrir útreikninga ráðuneytisins, útreikninga þeirra sem að þessum málum standa og annarra félagasamtaka, meira að segja Öryrkjabandalagsins líka? Ég held að engir hafi hafnað því nema stjórnarandstöðuþingmenn að með þessari hækkun sé verið að fylgja þeirri launaþróun sem er í landinu.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því að henni hefur verið tíðrætt um það að stjórnarandstöðuflokkarnir beri hag örorku- og ellilífeyrisþega meira fyrir brjósti en aðrir, hvort hún muni hver var hlutfallslega skerðingin á þeim málaflokkum miðað við aðra málaflokka hjá síðustu ríkisstjórn sem hún studdi. Mig grunar að hvorki heilbrigðismál né lífeyrismál hafi verið í sérstökum forgangi hjá þeirri ríkisstjórn. Það væri gott ef hún gæti upplýst það hvernig skerðingin var í þeim málaflokkum miðað við aðra málaflokka.