145. löggjafarþing — 54. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[02:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Þetta er svolítið skrýtin staða. Þetta þing er skrýtinn staður. Við höfum óskað eftir viðveru ráðherra og hingað er kominn mennta- og menningarmálaráðherra. Það er sérstakt fagnaðarefni en hann tekur ekki þátt í samtalinu og er hér til að hlusta. Það er gott, en þetta er einkennilega staða í ljósi þess að við vitum í raun og veru ekkert hver staða málsins er í ríkisstjórn Íslands. Það hefur komið fram á löngum tíma að hæstv. ráðherra hyggst leggja fram frumvarp þar sem fallið verður frá lækkun á gjaldinu. Síðan líða vikurnar og við fréttum af ráðherranum á ríkisstjórnarfundi og síðast á tröppunum fyrir utan Stjórnarráðið í dag þar sem hann vill enn ekki segja að málið sé útilokað.

Við erum í þeirri stöðu hér, þ.e. stjórnarandstaðan sem er upp til hópa stuðningsmenn Ríkisútvarpsins og deilir því með hæstv. ráðherra að vilja styðja Ríkisútvarpið hvað þetta varðar, að það hefur komið fram að við munum leggja fram breytingartillögu við tekjuhlutann, sem sagt við bandorminn, annars vegar og hins vegar við fjárlagafrumvarpið þar sem útgjöldin koma fram. Þá tryggjum við að tillaga ráðherrans komist til Alþingis þrátt fyrir hindranirnar í ríkisstjórn, þ.e. efnisleg tillaga ráðherrans. Ég vænti þess að þá munum við leysa úr læðingi raunverulegan stuðning þingsins við málið. Það er auðvitað mjög mikilvægt.

Ég vil biðja hv. þingmann að velta vöngum með mér yfir því hvað sé í raun og veru í húfi ef ekki verður farið í þennan leiðangur sem hæstv. ráðherra fer fyrir en kemst ekki út úr Stjórnarráðinu með en vegna þingskapanna getum við útbúið tillögu hans sem breytingartillögu. Hvað er í húfi ef þessi tillaga nær ekki fram að ganga?